
Lífið í Árdal
Það er alltaf eitthvað í gangi
Við hjónum unum okkur vel í sveitasælunni þar sem við erum í okkar elimenti. Við Salbjörg Matthíasdóttir og Jónas Þór Viðarsson fluttum í Árdal jólin 2014 og tókum við rekstri jarðarinnar af foreldrum Salbjargar, áætlað var að taka ár í prufu. Þetta prufuár var mjög viðburðarríkt mikið gert, þar á meðal að gifta okkur þann 4. júlí 2015 í Neskirkju í Aðaldal og slóum upp í heljarinnar veilsu í hlöðunni hér í Árdal. Það tók 2 vikna vinnu að laga til að gera fínt en það var líka komin þörf á það.
Við ætlum okkur að vera hér áfram og komin með ágætis rútínu á árið til að pússla öllum starfsgreinum okkar saman. í maí er auðvitað sauðburður sem er alltaf skemmtilegur og fullt af fólki kemur að hjálpa til og sjá árstíðina þar sem allt lifnar við í sinni bestu mynd. Í júní tekur svo við plöntun í skógræktagirðinguna sunnan við bæinn sem er um 44 ha og ferðaþjónustuvertíðin hefst. Í júlí og ágúst er það svo heyskapur og ferðaþjónustuvertíðin nær hápunkti. Einnig verða hross á járnum í þessum mánuðum. Í september taka svo göngur og fjárrag við þar sem lömbin og kindurnar koma heim, ásetningur valin og kjötið verður til. Október og nóvember reiknum við svo með að fari aðallega í kjötvinnslu og afgreiðslu skrokka, jafnvel desember líka en þar eru tilhleypingar nú aðal málið. Í janúar taka svo hrossin alfarið við, tamningar á utanað komandi hrossum verður mest í janúar, febrúar, mars og apríl. Þó alltaf sé hægt að semja um eitt og eitt hross á öðrum tímum ársins.
Önnur verk eru t.d. skítmokstur bæði í maí/júní og febrúar/mars, rúningur í mars o.fl. Allir eru velkomnir og vel þegnir sem vilja taka þátt í þessum skemmtilegu verkefnum með okkur og við höfum verið einstaklega vel umkringd vinum sem rétta fram sína hjálparhönd.
Fylgist með og endilega takið þátt!