Fjölskyldan í Árdal

Við hjónin Salbjörg Matthíasdóttir og Jónas Þór Viðarsson búum í Árdal í Kelduhverfi með börnunum okkar þremur þeim Heiðnýju, Sigursveini og Hrafneyju. Við eigum og rekum saman fyrirtækið Árdal ehf. Undir því er búreksturinn þar sem við seljum afurðir sauðfjárbúsins beint frá býli. Vörurnar eru allar unnar í heimavinnslu sem reist var árið 2021 á jörðinni með styrkfé frá Brothættum byggðum – Öxarfjörður í sókn og Öndvegissjóði.  Þetta er mjög góð aðstaða til að vinna kjöt, búin helstu tækjum og stórum frysti. Hún er í boði til leigu fyrir alla þá sem áhuga hafa á að vinna sínar vörur sjálfir. Auk búrekstursins er Árdalur ehf smíðafyrirtæki og vinnur Jónas sem smiður hjá Árdal ehf, hann er faglærður smiður og útskrifast sem byggingameistari um áramótin 2023-2024.

Þótt við rekum þetta fyrirtæki þá vinnum við einnig bæði utan þess, Salbjörg vinnur 90% vinnu hjá Landgræðslunni og Jónas 40% sem tónlistakennari hjá tónlistaskóla Húsavíkur. En okkur finnst mjög gaman að reka litla sauðfjárbúið okkar sem gefur um 180-190 lömb á ári, við njótum þess öll fjölskyldan að hugsa um kindurnar, taka þátt í samfélaginu í gegnum búskapinn og vinna afurðirnar sjálf. Auk kindana erum við líka mikið í hestamennsku og höfum mjög gaman að því að ríða út og fara í ferðir á sumrin, eftir því sem börnin stækka taka þau alltaf meira og meira þátt í bæði kindabrasinu og hestamennskunni.